Tíkin mín á von á hvolpum, þarf ég að hafa áhyggjur?

Áður en ákvörðun er tekin um að láta tíkina gjóta ætti fólk að vera búið að undirbúa sig vel og kynna sér þá vinnu sem liggur í því að takast á við það verkefni. Því fylgir mikil vinna og ábyrgð, og það ber einnig að hafa í huga að það er ekki án áhættu fyrir tík og hvolpa. Þrátt fyrir að í flestum tilfellum gangi meðgangan og fæðingin vel, er ýmislegt sem getur komið upp á í öllu ferlinu.

Spennandi og falleg upplifun getur breyst í andhverfu sína ef allt fer á versta veg, og það er ekki sjálfgefið að hlutirnir gangi eins og í sögu. Sumum hundategundum gefst þetta auðveldlega meðan hættan á vandamálum í fæðingum er margföld hjá öðrum. Líkamsástand og aldur tíkar við got skiptir einnig máli.

Í þessari grein verður stiklað á stóru yfir það sem getur komið upp á. Farið verður yfir helstu atriði sem hafa ber í huga meðan á meðgöngu stendur, í sjálfu fæðingarferlinu, svo og veikindi hjá tíkinni eða hvolpunum eftir fæðingu.

Eðlilegur meðgöngutími hjá tíkum er 58-70 dagar eftir fyrstu pörun. Þessi breytileiki er vegna þess að lóðafar tíkur getur verið óljóst á þeim tíma sem egglosið verður. Þannig geta tíkur parast áður en egglos hefur orðið og því verður meðgangan lengri . Einnig geta þær parast seint (eða eftir egglos) og því verður meðgöngutíminn styttri.

Fósturlát

Fósturlát er alls ekki óalgengt. Hjá dýrum sem fæða mörg afkvæmi (multipara) geta einstaka fóstur dáið, en hin haldið áfram að þroskast eðlilega. Hinsvegar getur það einnig gerst að öll fóstrin deyi.

Áhættuþættir sem framkallað geta fósturlát eru:

  • Skyldleikaræktun ( innræktunarstuðull >0,25)
  • Innkirtlasjúkdómar (t.d vanvirkni skjaldkirtils, ónóg myndun hormónsins prógesteróns á meðgöngu)
  • Vannæring og lélegur aðbúnaður, stress í umhverfinu
  • Sýkingar (veirur eins og: canine herpesvirus-1, minute virus; bakteríusýkingar eins og: E.coli, listeria monocytogenes, campylobacter, salmonella spp; örverusýkingar: t.d Toxoplasma gondii m.m)

Ef fósturlát verður snemma á meðgöngu frásogast allur fósturvefurinn og tíkin fer aftur inn í eðlilegan tímgunarhring (estrous cycle). Eigendur verða sjaldnast varir við nokkuð, nema e.t.v. lítið magn af slímkenndri útferð frá tíkinni sem oftast er glærhvít til bleik á litinn. Ef fósturdauði verður hinsvegar eftir að beinmyndun er hafin getur algjört frásog fósturvefs ekki átt sér stað, og ef öll fóstrin eru dauð getur fæðing farið í gang en stundum þarf tíkin aðstoð til þess (lyfjagjöf). Hins vegar getur það einnig gerst að aðeins eitt eða fá fóstur deyi, og þroski hinna heldur áfram eins og áður sagði. Dauðu fóstrin þorna upp og skorpna og fæðast svo ásamt hinum lifandi hvolpum.

Ef fósturlátið er af völdum smits þá getur það þróast út í legbólgu sem er alvarlegt ástand sem ekki er auðlæknað, og þó tíkin komist hjá legnámi líkurnar á ófrjósemi í framtíðinni miklar.

Fæðing hvolpanna

Fæðing hvolpanna er yfirleitt ánægjuleg og spennandi athöfn. Það er mikilvægt að tíkin hafi frið til að komast í gegnum allt ferlið. Einnig er mikilvægt að eigendur reyni að lesa hvort hún sæki í að hafa viðkomandi hjá sér eða kjósi frekar einveruna.

Alltof oft er búið að hóa saman öllum mögulegum og ómögulegum aðilum til að vera viðstaddir og það veldur tíkunum óþarfa stressi sem getur sett stórt strik í reikninginn hvað varðar eðlilegan framgang fæðingarinnar. Henni líður best í sínu vanalega umhverfi og með fólkinu sínu sem hún þekkir og treystir.

Ef eigandinn er óöruggur í ferlinu er rétt að viðkomandi leiti sér aðstoðar fyrirfram hjá dýralækni um ferlið, við hverju megi búast og hvenær hlutirnir eru ekki eðlilegir, svo hægt sé að bregðast rétt við. Einnig er ráð að hafa jafnvel eina góða manneskju sem hefur reynslu, og tíkin þekkir, sér til aðstoðar og leiðbeiningar.

Venja ætti tíkina við hvolpakassann, eða þann stað sem hún á að gjóta og vera með hvolpana, um 3-4 vikum fyrir got. Hún ætti að vera farin að sofa þar a.m.k. 2-4 dögum fyrir gotið svo hún upplifi öryggi þar.

Eðlileg fæðing

Fyrstu einkenni um að fæðing hvolpana nálgast er “hreiðurgerðin”, en hún getur komið fram allt að viku fyrir got og lýsir sér í því að tíkin rótar í bælinu sínu, er óróleg og matarlystin fer minnkandi.

Yfirleitt er talað um 3 stig í fæðingarferlinu.

Fyrsta stigið einkennist af hegðunarbreytingum hjá tíkinni eins og óróleika eða eirðarleysi, ótta, lystarleysi og hún másar gjarnan. Hún vill gjarna fara oft út og reynir að pissa. Innra með tíkinni verða einnig breytingar sem ekki eru okkur sýnilegar, en nauðsynlegar, því þær undirbúa fæðingarveginn og hina fullbyrja hvolpa fyrir sjálfan útreksturinn. Um er að ræða útvíkkun á leghálsinum og byrjun samdrátta í leginu sjálfu. Hvolpurinn setur sig í stellingu fyrir útreksturinn með því að snúa sér um lengdarásinn og rétta úr útlimum. Hitastigið lækkar og fer undir 37,5C og hjá sumum tíkum niður í 36C. Þetta fyrsta stig tekur vanalega um 6-12 tíma en getur dregist fram undir 36 tíma hjá einstaka tíkum. Slímkenndrar útferðar frá skeiðaropinu getur orðið vart.

Annað stigið nefnist rembingsstigið. Það hefst þegar fyrsti fósturbelgurinn verður sýnilegur í skeiðaropinu og lýkur þegar síðasti hvolpurinn er fæddur. Útrekstur hvolpsins er samspil milli stöðu hans í fæðingarveginum, samdráttar í leginu og samdrátta í kviðvöðvum tíkarinnar. Ytri fósturbelgurinn (allantochorion) brestur í fæðingarveginum - tíkin “missir vatnið”, sem er litlaust til ljósgrænt og lyktarlaust. Fæðing fyrsta hvolpsins getur tekið allt frá 5 mínútum og upp í 1 klukkustund. Hið seinna á helst við hjá smáhundategundum þar sem hvolpurinn er hlutfallslega stór í samanburði við tíkina. Tíkin hvilist milli hvolpanna, mislengi en allt að 3 tímar getur verið eðlilegt ef um stórt got er að ræða. Hvolparnir geta fæðst í líknarbelgnum (amnion) eða hann brestur í fæðingarveginum og fæðast þeir þá án hans. Fósturvökvinn er oft grænleitur vegna þess að við hann blandast niðurbrotsefni blóðs sem kemur frá staðnum þar sem fylgjan losnar frá legveggnum. Hitastig tíkarinnar er hér komið upp í eðlileg mörk og liggur oftast aðeins yfir þeim.

Tíkin hreinsar sjálf líknarbelginn utan af hvolpinum og bítur í sundur naflastrenginn. Rembingsstigið varir í u.þ.b. 3-12 tíma, en í undantekningartilvikum getur það varað í allt að 24 tíma. Það er þá helst þegar um mjög stór got er að ræða og tíkin hvílir sig þá lengi á milli síðustu hvolpanna.

Þriðja og síðasta stigið er oftast samtengt rembingsstiginu en þá fæðast fylgjurnar. Þær geta komið með hverjum hvolpi, nokkrar saman á milli hvolpa, eða allar í lokin. Útferð frá tíkinni getur varað í allt að 4-8 vikur en er vanalega mjög lítil eftir fyrstu 2 vikurnar. Mjög sjaldgæft er að fylgja verði eftir í tíkinni en ef svo er þarf tíkin meðhöndlun hjá dýralækni.

Erfið fæðing (dystochia)- hvenær er fæðing ekki lengur eðlileg ?

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvenær leita þarf upplýsinga eða aðstoðar dýralæknis. Ákveðin atriði gefa vísbendingar um að fæðingarferlið er ekki eðlilegt:

  • Meðgöngutími yfir 65 dögum miðað við fyrirliggjandi upplýsingar tímasetningu pörunar og sögu um fyrri got.
  • Grænsvört útferð án þess að fyrsti hvolpurinn er kominn.
  • Fósturvatnið fór fyrir meira en 2-3t og enginn hvolpur er fæddur.
  • Sterkar og reglulegar hríðir í meira en 20-30 mín. (allt að 1 tími með smáhunda) án þess að hvolpur fæðist.
  • Veikar og óreglulegar hríðir í meira en 2-4 tíma án þess að hvolpur fæðist.
  • Veikar eða engar hríðir og meira en 4 tímar eru liðnar frá fæðingu síðasta hvolps.
  • Einkenni um sjúkdóm (hiti, eitrunareinkenni, tíkin niðurdregin og/eða máttfarin).
  • Fóstrin/hvolparnir allir dauðir.
  • Þau vandamál sem upp geta komið í fæðingu geta bæði tengst bæði móður og hvolpum.

Hjá móðurinni getur fæðingin verið erfið eða stoppað vegna eftirfarandi þátta:

Líkamsbygging:

  • Þröng grind
  • Þrenging í skeið
  • Snúningur á legi

Lífeðlisfræðilegt:

Sóttleysi- engir eða litlir samdrættir í legi. Þetta er algengasta orsök erfiðrar fæðingar hjá tíkum (inertia uteri). Getur verið frumorsök (margar lífeðlisfræðilegar ástæður standa þar að baki) og verið fullkomin eða að hluta. Getur einnig verð afleiðing langrar og erfiðrar fæðingar.

Hjá fóstrunum eða hvolpunum geta ástæðurnar verið eftirfarandi:

Líkamsbygging:

  • Of stór fóstur.
  • Vansköpun.
  • Röng staða/lega í fæðingarvegi (malpresentation).

Lífeðlisfræðilegt:

  • Fósturdauði.
  • Ekki nægur fósturvökvi.
  • Vandamál eftir fæðinguna

Þótt hvolparnir séu fæddir er ekki þar með sagt að allri áhættu sé lokið. Um það bil 45% af þeim hvolpum sem deyja í fæðingu eða á fyrstu sólarhringunum deyja af þekktum orsökum. Um er að ræða lélegan aðbúnað, vannæringu tíkur sem leiðir af sér lágan fæðingarþunga hvolpanna, meðfæddir gallar, súrefnisskortur í fæðingu v/erfiðrar fæðingar, tíkin sinnir hvolpunum ekki, slys, eða sýkingar (bakteríur, veirur eða sníkjudýr).

Hins vegar deyja hin 55 prósentin af óþekktum orsökum (“fading puppy syndrome). Þeir hvolpar fæðast að því er virðist eðlilegir en eru með lélegan sogreflex. Einnig er áberandi að þeir væla mikið og nær stanslaust. Ástand þeirra daprast mjög hratt og þeir verða mjög máttfarnir, og deyja yfirleitt 2-5 dögum eftir fæðingu.

Það verður ekki áréttað nógu oft að fylgjast þarf vel með gotinu eftir fæðingu, og vanda sig í hvívetna við aðbúnað tíkarinnar og hvolpanna. Þannig er hægt að koma í veg fyrir hvolpadauða og vanþrif og vanlíðan hjá dýrunum.

Í kjölfar eðlilegrar fæðingar nær tíkin sér fljótt á strik með hvolpana. Hins vegar geta komið upp vandamál ef fæðingin hefur verið erfið, tíkin þurft fæðingarhjálp eða fóstur eða fylgja hefur orðið eftir. Þá geta komið sýkingar í fæðingarveginn og þær þarf að meðhöndla strax.

Framfall legs (prolaps uteri) er mjög sjaldgæft en þá er það helst á fyrsta sólarhring eftir gotið. Það krefst meðhöndlunar strax og felst nær undantekningarlaust í legnámi.

Annað sem getur komið upp á hjá tíkinni eru blæðingar frá fæðingarvegi, júgurbólgur og kalkskortur.

Það myndi vera of langt mál í þessari grein að fara yfir allt sem viðkemur fæðingarhjálp og meðhöndlun á þeim kvillum sem geta komið upp á hjá hvolpum og móður. Til þess þyrfti aðra grein, en greinarhöfundur vill ítreka það að það að láta tík eiga hvolpa er annað og meira en bara ákvörðunin, því fylgir mikil vinna og ekki síður ábyrgð að koma hvolpunum fyrir á góðum heimilium og að sinna þeim finnist ekki eigendur fyrir þá. Þetta er ekki spurning um að “leyfa” tíkinni að prófa að eignast hvolpa heldur höfum við tíma, ráð og getu til að sinna þeim og takast á við allt sem getur komið upp á?

Höfundur: © Hanna M. Arnórsdóttir, dýralæknir

Sérgrein Sjúkdómar hunda og katta: Dýraspítalinn Garðabæ

Heimildir:
  • Indrebö A.1997. Obstetrikk hos hund og katt. Tell Forlag, Vollen.
  • England, GCW. 2008. Course in Small Animal Reproduktion. Glósur. Kaupmannahöfn.
  • Noakes DE, Parkinson TJ and England GCW.2001. Arthur’s Veterinary Reproduction and Obstetrics. 8. Útgáfa. Saunders, Edinburgh.T

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun