Margir dýraeigendur huga lítið að tönnum dýra sinna og hugsa sem svo að þau bursti jú ekki tennurnar úti í náttúrunni og því þurfi ekki að athuga það nánar. Hér er þó um mikinn misskilning að ræða, því úti í náttúrunni bursta dýrin nefnilega tennurnar, ekki með tannbursta, heldur með fæðunni sem þau éta. Húð, hár, bein, fjaðrir og brjósk koma í stað fyrir tannbursta.
Eftir að við fórum að taka dýrin sem heimilisdýr og höfum fjarlægt þessi fæðuefni úr fóðri þeirra, ber meira á vandamálum tengdum lélegum tönnum og tannholdssýkingum. Oftast er vandamálið tannsteinn. Bakteríur dafna vel þegar tannsteinnmyndast og því myndast fljótt tannholdsbólgur. Við þetta geta tennurnar síðan losnað ef ekkert er að gert og sýkingin borist niður í tannrótina. Þetta ástand er mjög sársaukafullt fyrir dýrið og í versta falli getur ógnað lífi þess. Bakteríurnar úr tannholdinu geta breiðst til mikilvægra líffæra t.d. hjarta, lifrar og nýrna og leitt til veikinda í þessum líffærum. Það sem helst þarf að líta eftir er brúnleit skán á tönnum dýrsins, oftast nálægt tannholdinu. Einnig þarf að athuga hvort tannholdið sé rautt og hvort dýrið sé andfúlt. Önnur einkenni geta verið þau að dýrið er farið að slefa, það á í erfiðleikum með að éta eða vill ekki naga nagbein og slíkt og klórar sér oft í kringum munninn. Einn möguleiki er að bursta tennurnar daglega rétt eins og við gerum. Rétt fóður er þó það sem er mikilvægast, oft vantar hörku í þurrmatinn og þó séstaklega í dósamatinn. Því getur verið gott að huga daglega að því að dýrið fái eitthvað að naga t.d. kjötbein (stórgripabein), tilbúin nagbein, svínseyru og þess háttar. Einnig er hægt að fá fóður sem virkar fyrirbyggjandi gegn tannsteini og hægt að gefa dálítið af því daglega.
Hjá dýralækninum. Tannsteinn eða tannholdsbólga uppgötvast oftast hjá dýralækninum við hina árlegu heilbrigðisskoðun. Þá er hægt að fá upplýsingar um hvernig best er að meðhöndla meinið og síðan fyrirbyggja að það komi upp aftur. Stundum reynist nausynlegt að deyfa dýrið og fjarlægja tannsteininn og jafnvel mikið skemmdar tennur. Í sumum tilfellum þarf viðkomandi dýr að fara á sýklalyf í nokkra daga á eftir til að koma í veg fyrir að bakteríurnar dreifist um skrokkinn.