Þegar kettir eru bólusettir er bóluefninu sprautað undir húð þeirra. Stungan veldur örlitlum sársauka en að öðru leyti finna þeir lítið fyrir henni. Bóluefnið kennir hvítu blóðkornunum í blóði kattarins að þekkja og ráðast á þá vírusa eða bakteríur sem bóluefnið inniheldur. Þetta hindrar að kötturinn sýkist af þessum ákveðnu sýkingarvöldum.
Kattarfár var ein helsta orsök dauða katta áður en bóluefni gegn kattarfári kom til sögunnar. Sjúkdómurinn er sérstaklega hættulegur kettlingum og ungum köttum og veldur alvarlegum uppköstum og niðurgangi sem á stuttum tíma getur valdið banvænni ofþornun. Vírusinn smitast m.a.með sýktum saur og getur borist í kettlingafóstur gegnum fylgjuna og valdið m.a. fósturláti.
Nær öll tilfelli öndunarfærasjúkdóma í köttum orsakast af herpesvirus eða calicivirus (stundum báðir saman). Kattainflúensa er sjaldnast banvæn, undantekningar eru þó sýkingar hjá mjög ungum dýrum og dýrum sem þjást af öðrum kvillum fyrir. Einkennin eru þau sömu og við influensusýkingu hjá okkur mannfólkinu: hnerri, nefrennsli og rennsli úr augum, en einnig geta myndast sár í munnholi kattanna. Ef köttur sýkist getur hann borið vírusinn í langan tíma og þannig borið smit í aðra óbólusetta ketti. Sumir kettir sýna aldrei nein einkenni en eru heilbrigðir smitberar meðan aðrir eru með sár í munnholi eða "kvef" sem læknast seint.
(Clamydia) er sjúkdómur sem veldur sársaukafullum bólgum, sáramyndunum og leka frá augum. Klamidía er einnig álitinn einn af orsakavöldum fósturláts og ófrjósemi í læðum. Þessi baktería veldur aðallega usla þar sem margir kettir eru, eins og t.d. í ræktunarbúðum og á kattahótelum. Ef upp kemur sýking á svona stöðum getur reynst erfitt að losna við sjúkdóminn þar sem hann skýtur oft upp kollinum aftur og aftur. Hjá ungum kettlingum veldur klamidía sárum í augum og augnleka allt frá því þeir eru fárra vikna gamlir. Bólusetning gegn klamidíu er ekki eins mikilvæg hjá hinum almenna heimilisketti en hann getur þó auðveldlega smitast ef hann lendir t.d. á kattahóteli.
Þegar kettlingarnir fæðast fá þeir vernd gegn ýmsum smitsjúkdómum með hjálp mótefna sem þeir fá með fyrstu móðurmjólkinni (broddinum). Ónæmi minnkar síðan smátt og smátt upp úr 7 vikna aldri og fyrsta bólusetning fer jafnan fram í kringum 8-9 vikna aldur. Seinni bólusetning fer svo fram 3-4 vikum eftir þá fyrstu og rétt er að halda kettlingnum frá öðrum köttum þar til nokkrum dögum eftir seinni bólusetningu.
Sú vernd sem flest bóluefni gefa, minnkar með tímanum og mishratt eftir því hvaða tegund bóluefnis á í hlut. Oftast er árleg bólusetning nóg til að viðhalda nægu magni mótefna í blóði kattarins til að ráða við smit. Það er eðlilegt að kötturinn þinn geti e.t.v. orðið dálítið "eftir sig" í 1-2 daga eftir bólusetninguna og kannski myndast smá bólguhnúður á stungustaðnum. Það er sértaklega mikilvægt að endurbólusetja á réttum tíma þá ketti sem oft lenda í slag við aðra ketti, fara á kattasýningar eða gista á kattahótelum. Enginn hundur eða köttur er fæddur með náttúrulegt mótstöðuafl gegn alvarlegum og oft lífshættulegum sjúkdómum. Veikist þau af sumum þessara sjúkdóma verða þau í flestum tilfellum alvarlega veik eða jafnvel deyja. Sum geta líka hlotið varanlegan skaða.