(canine infectious tracheobronchitis, akut tracheobronchitis)
Kennelhósti er sjúdómur í öndunarfærum hunda. Hann orsakast af nokkrum sýkingarvöldum (agens), bæði veirum og bakteríum. Kennelhósti er ekki alvarlegur sjúkdómur þegar hann leggst á annars heilbrigð dýr en hann er mjög smitandi og dreifir sér fljótt innan hundahóps. Allir aldurshópar eru í hættu en ungir hvolpar með aðra smitsjúkdóma samhliða, t.d. hundafár eða smáveirusótt eru sérlega viðkvæmir svo og hundar með veiklað ónæmiskerfi.
Eins og nafnið gefur til kynna eru einkennin þurr og gjallandi hósti sem í sumum tilfellum getur orðið mjög þrálátur.
Hvað orsakar kennelhósta og hvernig leiðir það til sjúkdómseinkennanna?
Orsök sjúkdómsins er oftast sambland af nokkrum sjúkdómsvöldum (agens) þó stundum geti hann orsakast af aðeins einu þeirra. Á meðal þessara eru canine parainfluenzavirus III, canine adenovirus II, Bordatella bronchiseptica, canine distempervirus, canine herpesvirus og Mycoplasma canis. Þrír fyrstnefndu eru algengastir í sjúkdómsmenginu.
Smitvaldurinn kemst inn í líkama hundsins við innöndun og fjölgar sér í slímhúðarvegg barkans og berkjanna. Þetta veldur bólguviðbrögðum/ertingu á slímhúðinni og skemmdum á bifhárunum sem auðveldar bakteríum að setjast þar að og valda sýkingu. Hóstinn sem verður til vegna ertingarinnar eykur síðan á skaðann og bakteríusýking í kjölfarið á greiða leið.
Í einstaka tilfellum þar sem dýr er veiklað af öðrum sjúkdómum (ónæmiskerfið skert) getur sýkingin færst niður í neðri hluta öndunarfæranna og valdið t.d berkju-og lungnabólgu en það er sjaldgæft.
Frá því hundurinn sýkist og þar til hann sýnir einkenni líða 2-18 dagar.
Einkenni geta síðan varað í allt að 3 vikur og vitað er að Bordatella bronchiseptica getur verið í öndunarveginum í allt að 3 mánuði.
Nafnið á sjúkdómnum er komið til vegna þess hversu smitandi sjúkdómurinn er. Þannig líður skammur tími frá því hundur sýkist þar til hann dreifist til annarra hunda sem í kringum hann eru, t.d. í hundabyrgjum, á hundahótelum eða jafnvel hundaskólum.
Þættir sem hafa áhrif á smithæfnina eru einmitt t.d. þéttleikinn á hundahótelum og þ.h. og stressið sem fylgir, veiklað ónæmiskerfi v/annarra krankleika og léleg loftskipti í híbýlunum.
Einkennin eru þurr og gjallandi hósti og æsingur og/eða gelt ýtir undir einkennin. Flestir hundar sýna ekki önnur einkenni, eru í raun sprækir að öðru leyti þó einstaka hundur geti fengið hita og verið “slappur” í einn dag eða tvo.
Hóstinn er sem fyrr segir þurr og gjallandi og það getur jafnvel hljómað eins og eitthvað sé fast í hálsinum á hundinum!
Fyrstu dagana versnar hóstinn jafnan en lagast svo smátt og smátt og oftast næst fullur bati innan 3ja vikna.
Sjúkdómsgreiningin er byggð á forsögunni (umgengni hundsins við aðra hunda), bráðum þurrum hósta, sérstaklega við einhvern æsing eða eftir að hundurinn geltir.
Áhlustun á lungu er án athugasemda nema sekundær bakteríusýking sé komin þangað, vægur hiti getur verið og hægt er að kalla fram hósta með því að þreifa á barkanum. Sjaldnast er þörf á frekari rannsóknum en það gæti verið barkaspeglun, barkaskol og frumugreining t.d.
Meðhöndlun fer fram skv einkennum.
Sýklalyf eru óþörf nema grunur leiki á bakteríusýkingu í kjölfar veirusýkingar og hundurinn er mjög slappur.
Meðferðarúrræðin miðast að því að láta hundinum batna fyrr og líða betur á meðan en í raun þarf hann að komast yfir sýkinguna að sjálfsdáðum.
Halda á hundinum í ró þar sem æsingur og hreyfing eykur á hóstann og varast ber að fara með hann út í kalt veður meðan á veikindum stendur. Forðast þarf að koma honum í aðstæður sem kallar á gelt í honum þar sem það ýfir upp hóstann líka. Ef hundurinn er með taum í hálsól er ráðlegt að skipta yfir í annars konar beisli (höfuðbeisli eða brjóstól) á meðan veikindum stendur og hlífa þannig barkanum. Einnig ætti að gefa blautt fæði á þessum tíma og forðast þurrt kex. Hóstastillandi lyf geta verið gagnleg, sérstaklega fyrir svefninn svo bæði eigandi og hundur nái að hvílast!
Slímlosandi lyf má EKKI gefa þegar um kennelhósta er að ræða þar sem þau erta þekjuvefinn í öndunarfærunum og geta ýkt hóstaköstin m.a. Stutt meðferð með kortikosterum í bólgueyðandi skömmtum geta linað hóstann svo lengi sem ekki er um flóknari tilfelli að ræða, þe. hundurinn þarf að vera laus við hita, lungnabólgueinkenni o.s.frv.
Á meðan hundurinn er veikur þarf að varast umgengni við aðra hunda svo og í nokkra daga eftir að hann hættir að hósta.
Flestir hundar ná sér að fullu á 2-3 vikum en gamlir hundar og hundar með aðra ónæmisbælandi sjúkdóma geta átt á þessu lengur og verið veikari.
Þannig eru til tilfelli sem þróast í langvinn veikindi (chronic tracheobronchal syndrom).
Þó væri það mjög óvenjulegt ef hundur myndi deyja sem bein afleiðing af kennelhósta, eitthvað annað væri þá með í spilinu.
Hvolpar sem fá kennelhósta í kjölfar hundafárs hafa þó slæmar batahorfur (hundafár eða canine distempervirus finnst ekki á Íslandi).
Í raun er ekki vitað með vissu hvort kennelhósti fyrirfinnst hérlendis þar sem engar vísindalegar rannsóknir hafa farið fram þegar þetta er ritað.
Greinarhöfundur leyfir sér þó að leiða að því líkur að einhver dæmi hafi komið upp miðað við þann mikla innflutning sem orðið hefur á hundum undanfarinn áratug og ekki er hægt að segja að sjúkdómurinn finnist ekki meðan ekki hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Nokkur bóluefni eru til sem veita vernd fyrir hinum mismunandi vírusum og bakteríum sem eru í sýkingarmengi sjúkdómsins.
Erlendis er bólusett gegn sjúkdómnum, ýmist með einþátta eða fjölþátta bóluefnum en ekki er bólusett hér á Íslandi ennþá.
Heimildir:
© Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir