Á Íslandi eru fáir smitsjúkdómar sem herja á hunda. Þeir helstu eru smáveirusótt, smitandi lifrarbólga og hótelhósti. Fleiri smitsjúkdómar eru til staðar eins og t.d. herpes en það má segja að veikjast af þeim sé hluti af uppvextinum eins og grænt hor úr nös hjá börnum. Hér á eftir verður farið yfir þessa sjúkdóma, bóluefni sem í boði eru í dag á landinu og ráðleggingar um bólusetningu á hvolpum og fullorðnum hundum. Ekki verður hægt að fara mjög ítarlega í þessa sjúkdóma hér en reynt verður að gefa skýra og einfalda mynd af ferli þeirra og áhrifum þeirra á hundana.
Smáveirusótt orsakast af „canine" parvóvírus. Parvóvírusinn getur bæði lagst á hjartað og á meltingarveginn (maga og þarma). Magapestin er algengari eftir að byrjað var að bólusetja gegn þessum sjúkdómi. Vírusinn sest að og þrífst í þarmaslímhimnum hundsins og eyðileggur frumurnar í þeim. Við það minnkar yfirborð slímhimnunnar og hundurinn hættir að geta nýtt matinn, fær niðurgang, oftast blóðugan og illa lyktandi, og horast hratt. Þessar breytingar ganga yfirleitt til baka ef hundurinn nær tökum á sýkingunni en stöku hundur verður fyrir varanlegum skaða á þessum líffærum. Viðkvæmasti aldurinn er 4-14 vikna og geta hvolparnir dáið skyndilega eða orðið svo veikir að þeim er ekki bjargandi. Ákveðnar hundategundir eru í áhættuhóp t.d. Rottweiler- og Dobermannhvolpar. Á Íslandi virðast chihuahuahvolpar vera með í þessum hópi en það er ekki staðfest.
Einkenni á smáveirusótt eru margvísleg. Hundurinn getur verið fullkomlega heilbrigður og án sjúkdómseinkenna, en ber vírusinn og smitar aðra án þess að verða veikur sjálfur. Sumir fá mjög væg einkenni sem lýsa sér t.d. í smá magakveisu sem hundurinn hristir af sér á nokkrum dögum. Alvarlegustu einkenni á smáveirusótt eru mikil og heiftarleg uppköst ásamt miklum blóðugum niðurgangi, hita, og kviðverkjum. Uppköstin og niðurgangurinn valda því að hundurinn missir mikinn vökva og þornar upp sem eitt og sér getur verið lífshættulegt. Hundurinn getur einnig farið í sjokk. Blóðmissir getur verið töluverður og í einstaka tilfellum þarf hundurinn blóðgjöf.Smit berst á milli hunda með saur og í beinum samskiptum á milli hunda. Hundar sem hafa náð sér eftir veikindi geta skilið vírusinn út með saur í allt að fjórar vikur eftir veikindi því er hreinlæti mikilvægt og að hirða upp saur eftir hundana.
Við greiningu á parvósýkingu er hægt að gera ýmislegt. Parvó „snap test" er algengasta úrræðið sem notað er. Það er hægt að framkvæma við komu til dýralæknis og niðurstöðurnar koma í ljós á nokkrum mínútum. Þetta próf getur gefið falskt neikvætt svar, og gæti þurft endurtaka prófið eftir tvo sólahringa. Falsk jákvætt svar getur komið fram stuttu eftir bólusetningu. Aðrar aðferðir í greiningu á parvósýkingu eru notaðar og má þar nefna mótefnamælingu með blóðprufu, sýnatöku úr líffærum og krufningu.
Meðferðarúrræði eru fá og byggjast á stuðningsmeðferð með vökvagjöf og sýklalyfjagjöf. Einnig er mikilvægt að bæla uppköstin með lyfjagjöf og reyna að fá hundinn til að borða sem fyrst. Meltingarvegurinn þarf mat til að virka og nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að matargjöf snemma í sjúkdómsferlinu gefur betri raun en alger fasta eins og áður var talið að væri skynsamlegt.
Sótthreinsa þarf vistarverur og garða áður en nýr hundur kemur inn á heimilið og skynsamlegt er að hundurinn sér fullbólusettur og ekki yngri en 16 vikna. Parvóvírusinn er harðgerður og lifir lengi í umhverfinu og þarf því sérstök efni til sótthreinsunar. Ekki hlýst varanlegt ónæmi eftir sýkingu þar sem þessi vírus stökkbreytist reglulega.
Smitandi lifrarbólga orsakast af canine adenovirus 1 (CAV1). Lifrarbólga er almennt ekki algeng, en heilu gotin geta orðið veik á einu bretti. CAV1 vírusinn getur valdið bráðalifrarbilun í hvolpum sem deyja skyndilega. Hvolpurinn getur verið hress og kátur eina stundina og alvarlega veikur hina. Stundum deyr hvolpurinn nokkrum klukkutímum eftir að einkenni koma fram. Þessi bráða framganga getur oft lýst sér eins og eitrun. Sjúkdómseinkenni lifrarbólgu eru margvísleg. Helstu einkenni samanstanda af niðurgangi, stundum blóðugum, uppköstum, hita, hálskirtlabólgum, nefrennsli og slappleika. Oft eftir að hvolpurinn hefur náð hitatoppnum fellur líkamshitinn og getur farið undir eðlilegan líkamshita hvolpsins. Hvolpurinn getur fengið flog, fallið í dá, og oftar en ekki fá þeir gulu. Það lýsir sér með því að slímhimnur, sem annars eru hvítar eða bleikar, fá gula slikju eða verða algular. Ef hvolpurinn lifir sýkinguna af getur hann fengið svo kallað blátt auga (blue eye). Þetta er bjúgur í hornhimnu og bólgur í fremra augnhólfi og hverfur yfirleitt að sjálfu sér á nokkrum dögum.
Smit berst á milli dýra með samskiptum við veika einstaklinga ásamt snertingu við saur og þvag frá sýktum berum. Vírusinn berst í slímhimnur í nefi og koki og fjölgar sér til að byrja með í hálskirtlum og eitlum og í kjölfarið leggst vírusinn á lifrina. Hundur sem lifað hefur sýkinguna af getur útskilið vírus í þvagi í allt að ár.Erfitt getur reynst að greina lifrarbólgu en hækkuð lifrarensím geta gefið til kynna veikleika í starfsemi lifrarinnar. Til að staðfesta smit þarf að staðfesta tilveru vírusins í líkama hundsins. Algengast er að taka blóðprufu um 2-4 vikum eftir smit og senda í mótefnamælingu. Hitt er krufning eða sýnataka úr lifur.
Meðferðarúrræði eru fá og er einungis stuðningsmeðferð í boði. Meðferðin fellst aðallega í vökvagjöf og sýklalyfjagjöf í æð ásamt annari meðferð sem lúta að einkennum hundsins. Engin lyf eru í boði sem eyða vírusnum. Varanlegt ónæmi hlýst yfirleitt ef hundurinn lifir sýkinguna af.
Hótelhósti („kennel cough") orsakast af margvíslegum vírusum og bakteríunni Bordetella bronchiseptica, oft orsakast veikindin af blöndu af vírusum og bakteríum. Helstu vírusarnir sem bendlaðir hafa verið við þennan sjúkdóm eru canine parainflúensu vírusinn, canine adenovírus 2 (CAV2) og hundafárvírusinn (canine distemper virus). Hundafár hefur ekki greinst á Íslandi á núvernadi tímapunkti. Fleiri vírusar geta komið við sögu sem ekki eru nefndir hér. Hótelhósti er algengur hjá hundum sem búa eða dveljast langdvölum á hundahótelum, „kennels", þar sem mikið stress er ríkjandi og smitpressa.
Við hótelhósta eyðileggst slímhimnan í barka og berkjum. Við þetta minnkar mótstöðuafl lungnanna og bakteríusýking getur bæst ofan í vírussýkinguna og hundurinn fær aukalega lungnabólgu.
Sjúkdómseinkenni eru hósti, þurr eða með uppgangi. Hundurinn er sjaldan slappur og virðist oft heilbrigður við skoðun (fyrir utan þrálátan hósta). Í sjaldgæfum tilfellum verður hundurinn alvarlega veikur, horast, hættir að borða, fær hita og nefrennsli vegna bakteríusýkingar.
Meðferðarúrræði byggjast á þolinmæði eiganda. Hundurinn hóstar í 6-8 vikur (stundum lengur) og það getur tekið á þolinmæðina. Oft er hægt að minnka hóstann með lyfjagjöf og lungnabólgu af völdum bakteríusýkinar er meðhöndluð með sýklalyfjum. Mikivægt er að halda hundinum í ró til að minnka ertingu á öndunarfærin.Mögulegt er að taka blóðprufu og mæla mótefni gegn þessum vírusum en þetta er sjaldan framkvæmt þar sem hundurinn hlýtur ekki varanlegt ónæmi gegn sjúkdómnum.
Hvað er til ráða? Forvarnir eru besta vörnin og því er mikilvægt að bólusetja hundana á viðkvæmasta tímabili ævinnar og viðhalda bólusetningum alla ævi hundsins. Við heilbrigðisskoðun hjá dýralækni fær eigandinn ráðleggingar um hvernig skynsamlegast sé að haga bólusetningum fyrir hundinn. Þessar ráðleggingar eru breytilegar eftir einstaklingum og miðast við tegund, aldur og vinnuaðstæður hundsins (heimasætur, lögregluhundur, ræktunarhundur osfrv.) o.s.frv.
Á Íslandi eru tvennskonar bóluefni í boði. Einþátta bóluefni sem inniheldur einungis lifandi parvóvírus (Parvodog og Nobivac) og fjölþátta bóluefni (Recombitec C4) sem inniheldur lifandi parvóvírus, CAV2, canine parainflúensu vírus og canine distemper vírusinn. Síðast nefndi vírusinn er umbreyttur. CAV2 er notaður í stað CAV1 þar sem þessi vírus veitir vörn gegn sýkingu með báðum vírusunum en hundurinn fær ekki blátt auga eins og ef bólusett er með CAV1. Einnig var algengt að hundarnir fengu lifrarbólgu eftir bólusetningu ef notaður var CAV1 vírusinn í bóluefninu.
Bólusetja má hvolpa allt niður í 6 vikna aldur og mælt er með að hvolpurinn sé bólusettur á um 2-3 vikna fresti fram til 12 vikna aldurs. Einstaka tegundir er skynsamlegt að bólusetja við 16 vikna aldur einnig og þá við parvóvírusnum. Er hér sérstaklega átt við Rottweiler og Dobermann hvolpa. En hvenær á þá að byrja 6 vikna og hvenær 8 vikna eins og algengast er á Íslandi? Yfirleitt þarf að huga að umhverfi hvolpsins. Ef tíkin er eini hundurinn á heimilinu og auðveldlega hægt að komast hjá umgangi við ókunna hunda, þá er 8 vikna aldur fullnægjandi. Þegar um heimili með mörgum hundum sumir kannski á sýningum, á hundanámskeiðum, í vinnu og hitta þar af leiðandi mikið af öðrum hundum, eða erfitt er að hindra aðgang að öðrum hundum, þá er skynsamlegt að byrja fyrir 8 vikna aldur. Af þessum sökum eru sumir hvolpar að fá allt að 3 grunnbólusetningar og jafnvel fleiri ef þeir eru bólusettir líka 16 vikna gegn smáveirusótt á meðan sumir fá tvær bólsetningar. Þegar grunnbólusetningum er lokið kemur hvolpurinn aftur 12-15 mánaða í eins árs bólusetningu. Stálpaðir hvolpar, eldri en 16 vikna, þurfa einungis eina grunnbólusetningu og svo aftur um 12 mánuðum seinna. Hins vegar getur dýralæknir ráðlagt eiganda að láta grunnbólusetja slíkan hvolp tvisvar ef hvolpurinn er undir mikilli smitpressu. Eftir eins árs bólusetninguna er nóg að bólusetja á tveggja ára fresti, hér eru þó undantekningar á.
Fullorðnir hundar þurfa einungis eina grunnbólusetningu og eftir það einungis á tveggja ára fresti. Þó er mælt með að hundar sem eru í vinnu t.d. fíkniefnahundar, lögregluhundar, ræktunardýr, sýningarhundar, hundar sem búa í „kennelum" ofl., sem eru vegna „vinnu" sinnar undir mikilli smitpressu, séu bólusett á hverju ári á meðan hundurinn er í vinnu. Tíkur í ræktun er skynsamlegt að bólusetja á hverju ári, eða á árinu sem hugað er að goti, til að halda mótefnamagn í blóði tíkarinnar háu til að verja hvolpana betur.
Þetta er flókið og skiljanlegt að lesandinn hafi farið yfir síðasta kafla þessarar greinar nokkrum sinnum og hripað niður glósur til að skilja. Allar þessar ráðleggingar byggjast á rannsóknum á mótefnum móður sem berast hvolpunum í móðurkviði og mótefnum úr móðurmjólkinni sem verja hvolpana fyrstu vikur ævinnar.
Mikilvægt er að hundurinn, sama hve gamall, gangist undir heilbrigðisskoðun og sé við góða heilsu þegar hann er bólusettur. Ástæðurnar eru margvíslegar. Ein er að bóluefni við parvóvírus geta stökkbreyst og framkallað sjúkdóm og því er mikilvægt að bólusetja ekki slöpp eða veikburða dýr. Sé hundurinn veikur eða slappur geta þau sjúkdómseinkenni sem fyrir eru magnast og hundurinn getur orðið fárveikur.
Við bólusetningu erum við tæknilega séð að stríða ónæmiskerfinu, gera hundinn „pínulítið" veikann, en heilbrigður hundur er fullfær um að hrista þetta af sér án nokurra einkenna. En eins og við mannfólkið eru þetta einstaklingar og hundarnir geta brugðist við á mismunandi hátt. Helstu aukaverkanir eftir bólusetningu eru slappleiki, hitavella, eymsli á bólusetningarstað, sumir fá snert að magakveisu, og í sjaldgæfum tilfellum verður hundurinn fárveikur. Væg einkenni vara yfirleitt ekki lengur en 1-3 daga en skynsamlegt er að leita ráða hjá dýralækni ef dýrið hættir að nærast eða virðist kvalið eftir bólusetninguna. Lang algengast er þó að hundurinn sé alveg jafn fjörugur og fyrir bólusetningu.
Að endingu: munið að hirða upp eftir krílin ykkar, litlar nær ósýnilegar kúlur smita jafnt á við stórar dellur.