Gelding hunda:

Áhrif geldingar á eiginleika og hegðun hunda

Ýmislegt hefur verið rætt og skrifað um geldingar á hundum og eru ekki allir á eitt sáttir um ágæti þessarar aðgerðar. Hitt er deginum ljósara að þetta er oft nauðsynlegur liður í meðferðaráætlun fyrir hunda með ákveðin hegðunarvandamál og eykur líkurnar á að þjálfun heppnist. Bæði dýralæknar og hundaatferlisfræðingar eru sammála um það. Stundum bregðast eigendur illa við ábendingunni, sérstaklega karlkyns hundaeigendur, þrátt fyrir að öll rök og staðreyndir styðji aðgerðina það sinnið.

Það er í raun mjög skiljanlegt að mörgum hundaeigendum sé illa við hugsunina að hundurinn missi alla kynhvöt og geti aldrei fengið að para sig. Hinsvegar er hundarækt vandasamt verk sem ekki á að taka létt og framboð á hvolpum er yfirleitt alltaf umfram eftirspurn sem þýðir óhjákvæmilega, að ekki fá allir hvolpar varanleg og kærleiksrík heimili. Að eiga ógeltan hund og ætlast til að hann hegði sér ekki sem karlkyns hundur er einnig illa gert ef það er fyrirfram vitað að hann muni ekki notaður til undaneldis og greinilegt er að kynhormónin þvælast fyrir honum og valda honum meiri vanlíðan en hitt.

Gelding breytir einungis þeirri hegðun hunda sem er undir áhrifum karlhormóna. Skapgerð hunda, þjálfun, persónuleiki og vinnugeta eru háð arfgerð og uppeldi, ekki karlhormónum. Hundar verða ekki feitir og latir vegna geldingarinnar heldur vegna offóðrunar og sérstaklega vegna hreyfingaleysis. Eftir geldingu fær hundurinn oft meiri matarlyst og því þarf að taka tillit til fóðrunar og ekki slá af í göngutúrunum þó að hundurinn sé orðinn rólegri. Staðreyndin er sú að það er algerlega á ábyrgð okkar hundaeigenda hvort hundar okkar fitna eður ei með örfáum undantekningum.

Hvað er gelding?

Hægt er að tala um lyfjageldingu og geldingu með aðgerð.

Við lyfjageldingu er notast við hormón til að bæla niður kynhvöt hundsins. Lyfjagelding er ekki æskileg til langs tíma þar sem þau lyf sem notast er við geta haft slæmar hliðarverkanir við síendurtekna gjöf. Hins vegar er lyfjagelding ágætur kostur þegar hundaeigendur hafa íhugað geldingu sem lið í þjálfun en eru ekki tilbúnir að ganga skrefið strax til fulls nema sjá jákvæðar breytingar á undan.

Við geldingu með aðgerð eru bæði eistu hundsins fjarlægð meðan hundurinn liggur í svæfingu. Yfirleitt er komið með hundinn að morgni og hann síðan sóttur seinna sama dag. Hann er þá með sauma í sér sem þarf að fjarlægja eftir 7-10 daga.

Hverjar eru aðal ástæður geldinga á hundum?

A.

Sporna við offjölgun hunda. Því miður er það þannig enn þann dag í dag að töluverður fjöldi hvolpa og fullorðinna hunda er aflífaður vegna þess að þeir fá ekki varanleg heimili og mörg “slysagot” verða til vegna hunda sem sleppa úr haldi eigenda sinna og fylgja frumhvötum sínum.

B.

Heilsufars-eða læknisfræðilegar ástæður geta legið að baki geldingu. Dæmi um þetta er stækkaður blöðruhálskirtill í eldri hundum, krabbamein í eistum, sumar tegundir krabbameina við endaþarm og eineistungar/launeistungar (annað eða bæði eistu ekki niðri í pung við 6-9mánaða aldur og er tíðni krabbameins í slíkum eistum mun hærri en í þeim sem eru rétt staðsett í pung).

C.

Hegðunarvandamál eru ein algengasta ástæða geldingar. Hvolpar geta breyst mjög mikið í hegðun þegar þeir fullorðnast. Breytingarnar eru mest áberandi frá 6-7 mánaða aldri og þar til þeir hafa náð fullum félagslegum þroska við 1-3 ára aldur, allt eftir tegund hundsins. Þess skal þó getið að alls ekki allir karlkyns hundar verða erfiðir þegar þeir þroskast en einhverjar breytingar verða þó alltaf.

Gelding leysir alls ekki öll hegðunarvandamál. þjálfun samfara geldingu er nær undantekningarlaust skilyrði fyrir góðum árangri. Þau hegðunarvandamál sem gelding getur haft jákvæð áhrif á eru bundin við kyntengda hegðun sem koma oftar fyrir meðal rakka t.d. þvagmerkingar, árásarhneigð, makaleit og að riðlast.

Hin svokallaða afbrigðilega eða óæskilega hegðun hunda eru oft arfleið “eðlilegrar” hegðunar í náttúrunni en vegna þess umhverfis og lífstíls sem við búum hundum okkar og þeirra væntinga sem við gerum til þeirra verður þetta að vandamáli (okkar:-)

Dæmi um þetta er t.d. merkingar með þvagi. Í náttrunni er þetta mikilvæg aðferð til að halda óvinum og aðkomuhundum burtu af heimasvæði og komast þannig hjá áflogum sem óhjákvæmilega er óhentugt ef hundurinn ætlar að komast af.

Annað dæmi er árásargirni, hvort heldur sem hún beinist að öðrum rökkum (samkeppni um að koma sínum genum áfram til næstu kynslóðar) eða til varnar afkvæmum, matar eða maka. Í náttúrunni er þetta nauðsynlegt til að halda lífi en í hinni tilbúnu veröld mannsins verður þetta oftast vandamál.

Að auki má einnig nefna flökkuhneigðina en hún er nauðsynleg til að finna maka og svo fengitímann sem er 1x ári hjá frænda hundsins, úlfinum en vegna hönnunarþarfa mannshugans höfum búið til ótrúlega margar útfærslur (tegundir) hunda og kallað fram 2 lóðatímabil hjá þeim flestum sem geta komið hvenær árs sem er. Hundarnir verða fyrir mun meira áreiti en ella vegna lyktar af lóða tíkum og samt ætlumst við til þess að þeir sitji á sér.

Eftirfarandi dæmi eru tekin úr leiðbeiningum frá APBC (Association of Pet Behaviour Counsellors): Behavioural Effects of Canine Castration -An owners Guide by Hazel Palmer (1993)

Dæmi um aðstæður sem fá hundaeigendur til að íhuga geldingu á heimilishundinum:

Hundurinn minn sýnir árásarhneigð gagnvart fjölskyldumeðlimum, mun gelding leysa vandann?

Margar ástæður geta verið fyrir svona hegðun og er nauðsynlegt að leita orsakanna. Hér er þó oftast um valdatafl milli hunds og eiganda að ræða sem krefst skýrari lína í stöðu hundsins innan heimilisins. Hér er fyrst og fremst þörf á þjálfun og stöðulækkun hundsins. Árásargirni tengd drottnun eða goggunarröð innan hópsins er að vísu mun meira áberandi meðal ógeltra en geltra hunda og þannig getur gelding hjálpað og er oft ráðlögð samfara stífu þjálfunarferli en er aldrei lausn ein og sér.

Hundurinn minn sýnir árásarhneigð gagnvart gestum. Getur gelding breytt þessu?

Eins og með dæmið að ofan þarf að greina ástæðuna fyrir hegðuninni. Hundinum gæti fundist hann hafa fullan rétt á að gæta heimilisins og hegðunin verið hreint ráðríki þannig að gelding gæti hjálpað með því að lækka stöðu hundsins. Hinsvegar mun gelding ekki hafa áhrif á eiginlegt varðeðli hundsins - hann mun áfram gelta og láta vita ef það er honum eiginlegt.

En hundur getur einnig sýnt svona hegðun af einskærum ótta. Hann geltir og hið óboðna fer (t.d. pósturinn) og hann eflist í hlutverkinu með hverjum deginum. Hér myndi gelding ekki hjálpa.

Hundurinn minn er taugaveiklaður og sýnir árásargirni gagnvart ókunnugu fólki á göngutúrunum. Mun gelding stöðva þessa hegðun?

Gelding er alls ekki lækning við árásarhneigð sem er tengd ótta eða taugaveiklun. Þetta ástand orsakast oft af skorti á félagsmótun við manninn á fyrstu vikum hvolpsins eða tengd slæmri lífsreynslu síðari tíma. Þetta atferli er á engan hátt tengt hormónaferli hundsins. Hér er aðeins hægt að styðjast við ákveðna þjálfunartækni til lausnar vandanum.

Ég á tvo rakka sem slást innbyrðis. Ætti ég að láta gelda þá báða?

Þörfin á að skapa ákveðið stigveldi er oft orsök áfloga milli hunda á sama heimili. Yngri hundur gæt verið að reyna að setja sig ofar eldri hundi eða báðir hundar verið svo líkir af stærð, aldri og skapgerð að það er erfitt fyrir þá að sætta sig við ákveðna goggunarröð og þeir því alltaf að ögra hvor öðrum. Áflogin eru oft hávaðasöm án mikilla meiðsla en geta orðið alvarleg. Slagsmálin eru í raun oft orsökuð af eigandanum sem kemur róti á fyrirliggjandi valdastöður.

Til að leysa vandann verður hundaeigandinn að viðurkenna annan hundinn ofar hinum og styrkja stöðu hins ráðandi hunds (ekki þó á kostnað yfirráða sinna). Hægt er að leita leiðbeininga um hvernig þessu er náð, hjá hundaatferlisfræðingum eða dýralæknum sem hafa sett sig inn í hundaþjálfun. Hundaeigandinn sjálfur þarf þannig að læra hvernig hann setur sig yfir báða hundana en það kemur einmitt oft í veg fyrir innbyrðis valdatogstreitu þegar skýrar línur eru um það hver ræður heima fyrir.

Gelding getur gagnast við svona aðstæður en það er mikilvægt að greina hvor hundurinn er líklegri til að láta undan og vera undirgefinn og gelda þann hund fyrst til að auka bilið milli valdastöðu hundanna. Ef vandinn leysist ekki við þetta og hinn hundurinn heldur áfram uppteknum hætti ætti að gelda hann líka sem lokaúrræði.

Hundurinn minn hegðar sér vel innan um aðra hunda þegar hann er laus en sýnir árásarhneigð gagnvart þeim þegar hann er í taumi. Gæti gelding leyst þetta?

Á byrjunarstigum hræðslutengdrar árásarhneigðar, finnur hundur sem er laus fyrir öryggi með að komast undan ef honum er ógnað. Þegar hann er í taumi hefur hann ekki möguleika á þessu og lærir því að nota árásarhegðun til að fæla hina mögulegu ógnun í burtu og þar sem hegðunin ber oftast góðan árangur stigmagnast þetta atferli og getur jafnvel orðið svo yfirþyrmandi að það kemur einnig fram þegar hundurinn er ekki í taumi.

Gelding er ekki líkleg til að breyta þessari hegðun þar sem atferlið tengist frekar hræðslu en áhrifum hormóna. Gelding gæti jafnvel aukið á vandann hjá einstaklingum sem laða að sér aðra hunda í kjölfarið og þannig ýkt enn frekar slíka hræðslutengda hegðun.

Hundurinn minn er árásargjarn gagnvart öðrum hundum þegar hann er laus, ætti ég að láta gelda hann?

Ef hann sýnir þessa hegðun bæði gagnvart rökkum og tíkum getur ástæðan verið sú að félagsmótun hans sem hvolpur var ónóg og hegðun hans því vegna skorts á félagslegri færni. Skortur á félagsmótun eða minningin um að hafa verið ráðist á getur leitt til hræðslutengdrar árásarhneigðar sem getur jafnvel einskorðast við einstaklinga sem minna á hinn upprunalega árásaraðila. Hér er ólíklegt að gelding breyti nokkru.

Ef hins vegar árásarhneigðin hefur þróast eftir að hundurinn hefur fullorðnast og beinist sérstaklega gagnvart öðrum rökkum, er líklegt að gelding hjálpi þar sem geltur hundur hefur minni þörf fyrir að drottna, hann lyktar ekki lengur af karlhormónum og ögrar því síður öðrum hundum og geldingin hækkar þann áreitisstuðul sem þarf til að hundurinn sýni árásarhneigð gagnvart öðrum hundum.

Þjálfun samfara geldingu er þó alltaf nauðsynleg til að tryggja góðan árangur, því hundurinn hefur tamið sér ákveðna hegðun og býr yfir ákveðinni reynslu.

Hundurinn minn merkir innandyra, hættir hann því ef hann er geltur?

Þetta vandamál kemur stundum fyrir þegar hundar komast á kynþroskaaldurinn. Yfirleitt eru þetta alltaf sömu staðirnir og uppað einhverju t.d. gardínum, stólfótum o.s.frv. Tilvist annarra hunda í grenndinni eða jafnvel lóða tíka ýtir undir atferlið og jafnvel nægir að ný húsgögn komi inn á heimilið eða gestir komi í heimsókn. Hér gagnast gelding vel þar sem þörfin fyrir að merkja dvínar mjög við geldingu.

Hundurinn minn er alltaf að merkja á göngutúrunum og dregur mig að ljósastaurum og þúfum í þeim tilgangi. Breytist þetta við geldingu?

Hundurinn er auðvitað rekinn áfram af þörfinni fyrir að setja sína lykt á svæðið en hér skiptir líka máli að eigandinn hafi stjórn á hundinum því þrátt fyrir allt er hann “yfirhundur” þó hann gangi kannski ekki svo langt í þeim efnum að spræna út um stokka og steina :-). Geltir hundar merkja minna og tæma blöðruna frekar þannig að gelding mundi minnka þessa hegðun en hundageigandinn þarf líka að læra að hafa betri stjórn á hundinum.

Hundurinn minn skemmir hluti þegar ég skil hann eftir einan heima, gæti gelding stöðvað þessa hegðun?

Gelding hefur engin áhrif á svona atferli. Hér er orsökin hræðsla við aðskilnaðinn. Hér þarf að leysa vandann með ákveðinni þjálfunartækni og best er að leita aðstoðar hjá dýralækni og viðurkenndum hundaþjálfara.

Hundurinn minn er alltaf að stinga af og fer á flakk. Gelding?

Ef hundurinn er á höttunum eftir tíkum en ekki á veiðum eða í könnunarleiðangrum um svæðið þá eru stórar líkur á að gelding geri hann heimakærari. Gelding hefur jákvæð áhrif í um 90% tilfella. Að auki er mikil hætta á að hundar lendi fyrir bíl á þessum flökkutúrum sínum þannig að gelding er mjög réttlætanleg við svona aðstæður.

Hundurinn minn riðlast á fótleggjum fólks, hættir hann þessu ef hann er geltur?

Hvolpar sýna hvor öðrum oft svona hegðun og þar er þetta eðlilegt atferli. Þegar hvolpurinn verður kynþroska er þessari hegðun komið af stað aftur vegna hormónabreytinga. Hegðunin sést oft þegar hundurinn æsist í leik eða hefur nýlokið við að éta. Hundarnir reyna oft að fara upp á ung börn þar sem viðbrögð þeirra eru hvetjandi - hlátur og ærsl. Ef þessi hegðun heldur áfram eftir að hundurinn eldist er gelding ráðleg. Um 9 af hverjum 10 hundum hætta þessu þá. Þetta atferli getur þó einnig verið ein hlið drottnunarhegðunar og þá þarf einnig að taka á því með réttri þjálfun. (Riðlun á púðum og böngsum og þ.h. hættir einnig við geldingu).

Er illa gert að gelda hunda? Meirihluti hunda mun aldrei fara á tíkur en frumhvatir þeirra í þeim efnum geta oft valdið hundunum erfiðleikum og mikilli gremju. Þegar eðlunarhvötinni er eytt með geldingu virðast hundarnir oft sáttari. Þeir hafa engar hugmyndir um hvað þeir eru að missa af.

Er ekki ónáttúrulegt að gelda hunda?

Jú, en það er líka ónáttúrulegt að ala upp ógelta rakka í tilbúnu umhverfi og vænta þess að þeir hagi sér ekki eins og karlkyns hundar. Er ekki betra að tryggja það að hvatir þeirra valdi þeim ekki vanlíðan og að það fæðist ekki fleiri óvelkomnir hvolpar?

Hvenær er rétti tíminn fyrir geldingu?

Gelding getur breytt hegðun hunda þótt hún sé framkvæmd eftir að hundurinn er orðinn fullorðinn en mikilvægt er að hafa í huga að breytingar gerast ekki á einni nóttu. Framfarir geta tekið nokkra mánuði og óæskilegri innlærðri hegðun þarf að breyta með aðstoð þjálfunar.

Ýmsir vinnuhundar eru geltir strax við kynþroskaaldur og hefur það gefið góða raun. Dæmi um þetta eru blindrahundar og hundar sem aðstoða fatlaða svo og leitarhundar og lögregluhundar.

Hverjir eru ókostir geldinga?

Hjá sumum hundum verða feldbreytingar, t.d. aukið hárlos og einnig gæti þurft að kemba hundunum oftar svo feldurinn verði síður mattur. Aftur á móti geta sumir hundar fengið hvolpalegri feld, úfnari og mattari. Þetta er mest áberandi hjá setter hundum og spaniel tegundum.

Sumir geltir hundar verða kynferðislega aðlaðandi fyrir aðra hunda og verða fyrir ágangi þeirra vegna lyktar eða lyktarleysis.

Mun hundurinn minn fitna mikið eftir aðgerðina?

Nei, en hundar hafa oft aukna matarlyst eftir geldinguna sem verður til þess að eigandinn fóðrar þá meira. Að þessu leyti má segja hundurinn fitni í kjölfar geldingarinnar. Margir hundar þurfa minna fóður til að viðhalda sömu líkamsþyngd eftir aðgerðina og með því að skera niður á fóðurgjöfinni við fyrstu einkenni þyngdaraukningar má koma í veg fyrir vandamálið.

Alveg eins og hjá okkur mannfólkinu skiptir hreyfing líka miklu máli.

Verður hundurinn minn síðri í vinnu eftir geldingu?

Nei. Í raun eru geltir hundar oft auðveldari í þjálfun þar sem þeir láta síður truflast af umhverfinu. Leikgleðin breytist heldur ekki. Hundurinn verður ekki latur nema hann fitni og það er jú undir eigandanum komið.

Maðurinn minn er mjög mótfallinn því að heimilishundurinn verði geltur, hvernig get ég sannfært hann?

Karlmenn hafa tilhneigingu til að yfirfæra sínar tilfinningar og reynslu í þessum efnum yfir á karlkyns dýr, þar með talið hunda. Þeir krossleggja fætur og gretta sig ef minnst er á geldingu en finnst oft í fullkomnu lagi að taka læður og tíkur úr sambandi og eru jafnvel sáttir við að eiginkonur þeirra fari í ófrjósemisaðgerð! Hundurinn veit ekki af hverju hann er að missa og hann les ekki “playdog”. Því er óþarfi að hafa áhyggjur af því að hann missi af unaði ástalífsins:-).

Vonandi varpar þetta greinarkorn einhverju ljósi á áhrif geldinga á hunda og veitir innsýn inn í hegðunarmynstur þeirra.

Heimildir. Ackerman, Hunthausen og Landsberg: Handbook of behaviour problems of the dog and cat(2000) Fogle: The Dogs Mind- Understanding your dogs behaviour (1990) Palmer: The Behavioural Effects of Canine Castration-An Owners Guide (1993)